Norska liðið Bodø/Glimt gerði sér lítið fyrir og sigraði stórlið Olympiacos frá Grikklandi, 3:0, á heimavelli sínum í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar í fótbolta.
Heimamenn komust yfir á 13. mínútu með sjálfsmarki og Daninn Kasper Høgh kom þeim í 2:0 á 45. mínútu og í 3:0 á 55. mínútu og þar við sat.
Frankfurt gerði góða ferð til Amsterdam og sigraði Ajax, 2:1. Brian Brobbey kom Ajax yfir snemma leiks en þeir Hugo Larsson og Ellyes Skhiri svöruðu fyrir Frankfurt.
Roma vann dramatískan sigur á Athletic Club á heimavelli, 2:1. Inaki Williams kom spænska liðinu yfir á 50. mínútu en sex mínútum síðar jafnaði Angelino. Varamaðurinn Eldor Shomurodov skoraði svo sigurmarkið í uppbótartíma.
Lazio, sem er einnig frá Róm, vann ekki síður dramatískan sigur er liðið sótti Viktoria Plzen heim til Tékklands. Urðu lokatölur 2:1. Alessio Romagnoli kom Lazio yfir á 18. mínútu en Rafiu Durosinmi jafnaði á 53. mínútu.
Nicoló Rovella fékk beint rautt spjald á 77. mínútu hjá Lazio og liðsfélagi hans Samuel Gigot fékk sömuleiðis rautt spjald á þriðju mínútu uppbótartímans. Þrátt fyrir að vera tveimur færri skoraði Gustav Isaksen sigurmark Lazio á áttundu mínútu uppbótartímans.