Stjarnan aftur í landsliðið

Neymar er markahæsti leikmaður brasilíska landsliðsins.
Neymar er markahæsti leikmaður brasilíska landsliðsins. AFP/Nelson Almeida

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar er í landsliði þjóðar sinnar fyrir leikina við Kólumbíu og Argentínu í undankeppni HM sem verða leiknir síðar í mánuðinum.

Er hann í hópnum í fyrsta skipti í 17 mánuði en hann var lengi frá keppni vegna meiðsla sem hann varð fyrir í landsleik í október árið 2023.

Hinn 33 ára gamli Neymar samdi við uppeldisfélagið sitt Santos í janúar og hefur skorað þrjú mörk og gefið þrjár stoðsendingar í sjö leikjum í efstu deild Brasilíu.

Aðeins Cafu hefur leikið fleiri landsleiki en Neymar. Cafu lék á sínum tíma 142 leiki á meðan Neymar er með 128 landsleiki. Neymar er hins vegar markahæstur í brasilíska landsliðinu með 79 mörk, tveimur meira en Pele.

Brasilía er í fimmta sæti í undankeppninni með 18 stig eftir 12 leiki. Efstu sex liðin fara beint á HM og liðið í sjöunda sæti fer í umspil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert