Real Sociedad og Manchester United skildu jöfn, 1:1, í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópudeildar karla í knattspyrnu á Reale Arena í San Sebastián í kvöld.
Seinni leikur liðanna fer fram eftir nákvæmlega viku á Old Trafford.
Joshua Zirkzee kom United yfir á 58. mínútu leiksins. Þá fékk hann sendingu frá Alejandro Garnacho og smellti boltanum viðstöðulaust á mitt markið og inn. Álex Remiro markvörður Sociedad var illa staðsettur og varði skotið þess vegna ekki.
Mikel Oyarzabal jafnaði metin á 70. mínútu úr víti. Þá hafði Bruno Fernandes fengið boltann í höndina inn í teig og eftir athugun í VAR-sjánni benti Ivan Kruzliak dómari á punktinn.
Oyarzabal sendi André Onana markvörð í vitlaust horn og jafnaði metin, 1:1.
Landsliðsmaðurinn Orri Steinn Óskarsson kom inn á 63. mínútu og fékk tvö góð færi en tókst ekki að kom boltanum í netið.