Luis Enrique, knattspyrnustjóri Parísar SG, fannst niðurstaðan ekki sanngjörn eftir að liðið tapaði 0:1 fyrir Liverpool á heimavelli í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gærkvöldi.
PSG réði lögum og lofum og fékk urmul færa á meðan Liverpool átti tvö skot, þar af eitt á markið og skoraði úr því. Alisson átti stórbrotinn leik í marki Liverpool og varði níu skot.
„Það er erfitt að skoða þennan leik í augnablikinu. Það leikur enginn vafi á því að við áttum skilið að vinna. Þetta er mjög svekkjandi. Þeir áttu eitt skot og skoruðu eitt mark. Við vorum miklu betri en Liverpool.
Besti leikmaður andstæðinganna var markvörðurinn. Þetta eru afskaplega ósanngjörn úrslit. Ég er stoltur af frammistöðunni hjá leikmönnunum en núna einbeitum við okkur að síðari leiknum.
Við erum reiðubúnir. Vitanlega getum við snúið þessu við okkur í hag á útivelli. Við gerum okkar besta til að standa uppi sem sigurvegarar í viðureigninni. Við höfum engu að tapa,“ sagði Enrique við fréttamann eftir leikinn í gærkvöldi.
Síðari leikurinn fer fram á Anfield næstkomandi þriðjudagskvöld.