Ítalska knattspyrnufélagið Bologna hefur tekið upp á þeirri nýjung að gefa öllum nýburum sem fæðast í borginni treyju áður en þeir fara af sjúkrahúsi og halda til heimila sinna í fyrsta skipti.
Bologna ákvað að ráðast í þetta átak í samvinnu við borgarstjórn og íþróttavöruframleiðandann Macron, sem framleiðir búninga félagsins.
Ástæðan fyrir átakinu er til þess að „nýir stuðningsmenn og félagið bindist ástúðarböndum frá fyrsta degi“ eins og kemur fram á heimasíðu Bologna.
Átakinu hefur þegar verið komið á fót, það var gert í janúar á þessu ári og því hefur fjöldi nýbura þegar fengið Bologna-treyju að gjöf stuttu eftir að hafa komið í heiminn.