„Þetta vekur okkur af værum blundi“

Son Heung-Min.
Son Heung-Min. AFP/Justin Tallis

Son Heung-Min, fyrirliði Tottenham Hotspur, var ekki ánægður með frammistöðu liðsins í 1:0-tapi fyrir AZ Alkmaar í fyrri leik þeirra í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í fótbolta í Hollandi í gærkvöldi.

Tottenham náði sér ekki á strik og hefði AZ hæglega getað skorað fleiri mörk.

„Þetta er ekki nálægt því getustigi sem við eigum að vera á. Það eru mikil vonbrigði að við höfum staðið okkur með þessum hætti, þar á meðal ég. Þetta vekur okkur af værum blundi því í næstu viku eigum við stærsta leik okkar á tímabilinu.

Við sköpuðum okkur ekki neitt, það var slen yfir okkur og við stóðum okkur ekki eins og við áttum að gera. Það eru allir svekktir með einstaklingsframmistöðurnar og frammistöðu liðsins. Það eru engar afsakanir.

Við vorum ekki nægilega góðir. Staðan er bara 1:0 og því er þessu hvergi nærri lokið. Við verðum að standa okkur miklu betur í næstu viku,“ sagði Son í samtali við TNT Sports eftir leikinn.

Síðari leikurinn fer fram á heimavelli Tottenham næstkomandi fimmtudagskvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert