Íslendingurinn útilokar ekki uppsagnir

Magni Fannberg starfar fyrir Norrköping.
Magni Fannberg starfar fyrir Norrköping. Ljósmynd/AIK

Sænska knattspyrnufélagið Norrköping tapaði 43,8 milljónum sænskra króna á síðasta ári. Magni Fannberg er yfirmaður íþróttamála hjá félaginu og hann tjáði sig um stöðuna við FotbollDirekt í Svíþjóð.

„Öll félög verða að hugsa vel um fjármálin. Við höfum ekki þurft að draga úr okkar starfsemi,“ sagði Magni.

„Auðvitað værum við til í að fjárhagurinn væri betri en það er mikilvægt að skoða alla anga málsins,“ bætti hann við.

Norrköping hefur reitt sig á að selja leikmenn undanfarin ár en það hefur gengið illa að undanförnu.

„Að selja leikmenn er mikilvægur hluti af rekstrarumhverfi okkar. Við getum samt ekki tekið of miklar áhættur og treyst á að við fáum stór tilboð. Þú verður að sýna ábyrgð,“ sagði hann.

Sænskir miðlar hafa greint frá að Norrköping þurfi að segja upp starfsfólki vegna stöðunnar.

„Þessi staða hefur áhrif á allt félagið en það verður á milli mín og þeirra sem þetta varðar, af virðingu við þau,“ sagði Magni.

Arn­ór Ingvi Trausta­son, Ísak Andri Sig­ur­geirs­son og Jónatan Guðni Arn­ars­son leika all­ir með Norr­köp­ing.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert