Topplið Inter Mílanó vann gífurlega mikilvægan endurkomusigur á botnliði Monza, 3:2, í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu karla í gærkvöldi.
Ríkjandi meistarar Inter eru áfram á toppnum, nú með 61 stig, fjórum stigum á undan Napoli sem á leik til góða gegn Alberti Guðmundssyni og félögum í Fiorentina í dag.
Monza rær lífróður á botninum með aðeins 14 stig, tíu stigum frá öruggu sæti þegar tíu umferðir eru óleiknar.
Botnliðið komst óvænt í 0:2 á Giuseppe Meazza leikvanginum í Mílanó, beturþekktur sem San Síró, með mörkum frá Samuele Birindelli og Keita Baldé Diao í fyrri hálfleik.
Marka Arnautovic tókst að minnka muninn í 1:2 fyrir leikhlé og hófst þá endurkoma heimamanna.
Hakan Calhanoglu jafnaði metin fyrir Inter eftir rúmlega klukkutíma leik og sigurmarkið kom svo 13 mínútum fyrir leikslok þegar Giorgos Kyriakopoulos, leikmaður Monza, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.