Stórleikur Cecilíu dugði ekki til

Cecilía Rán Rúnarsdóttir.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir. Ljósmynd/Inter

Cecilía Rán Rúnarsdóttir, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, stóð sig einu sinni sem áður frábærlega í marki Inter Mílanó þegar liðið tapaði naumlega fyrir Roma, 2:1, í toppslag í ítölsku A-deildinni í dag.

Inter er í öðru sæti deildarinnar með 38 stig og Roma er sæti neðar með jafnmörg stig.

Mörkin sem Cecilía Rán fékk á sig komu úr vítaspyrnu og á fimmtu mínútu uppbótartíma en hún varði annars sjö skot af þeim 28 sem Roma reyndi í leiknum.

Fékk Cecilía Rán fyrir vikið 8,1 í einkunn hjá úrslitavefnum vinsæla Sofascore, sem var hæsta einkunn sem leikmaður fékk í leiknum.

Hún hefur fengið fæst mörk allra markvarða í ítölsku A-deildinni á sig á tímabilinu, aðeins 15 mörk í 17 leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert