Knattspyrnumaðurinn Sævar Atli Magnússon verður samningslaus hjá Lyngby í Danmörku eftir tímabilið en hann kom til félagsins sumarið 2021.
Hingað til hafa viðræður á milli Sævars og félagsins ekki gengið upp og er honum því frjálst að semja við annað félag í sumar.
Hann hefur m.a. verið orðaður við Brann, þar sem Freyr Alexandersson er þjálfari. Freyr þjálfaði Sævar hjá Lyngby og uppeldisfélagi þeirra beggja, Leikni í Reykjavík.
„Ég einbeiti mér bara að Lyngby og ég er ekkert að spá í sumrinu. Ég geri allt sem ég get til að hjálpa liðinu að halda sæti sínu í úrvalsdeildinni. Ég veit ekki hvað gerist eftir það,“ sagði Sævar við Bold í Danmörku.
„Við töluðum saman um nýjan samning í janúar en ákváðum að einbeita okkur bara að tímabilinu,“ sagði hann. Sævar var svo spurður hvort hann hefði áhuga á að fara til Brann.
„Ég veit það ekki. Freyr er æðislegur þjálfari og hann gerði glæsilega hluti með Lyngby. En ég veit það ekki,“ sagði hann.
Freyr hefur þegar fengið Eggert Aron Guðmundsson frá Elfsborg og hefur Logi Tómasson einnig verið orðaður vð Brann.