Ítalska knattspyrnufélagið Juventus mátti í gærkvöld þola sitt versta tap á heimavelli í 58 ár þegar Atalanta kom í heimsókn til Tórínó og vann uppgjör liðanna í þriðja og fjórða sæti A-deildarinnar, 4:0.
Árið 1967 tapaði Juventus 4:0 fyrir grönnum sínum Tórínó á heimavelli. Áður hafði félagið beðið lægri hlut með sömu markatölu gegn Fiorentina árið 1955 og gegn Pro Patria árið 1948.
Þá er þetta aðeins í þriðja sinn á þessari öld sem Juventus tapar leik með fjögurra marka mun. Áður gerðist það í útileikjum gegn Napoli, 5:1, árið 2023 og gegn Roma, 4:0, árið 2004.
Tapið í gærkvöld er aðeins annað tap Juventus í A-deildinni í vetur en liðið hefur hins vegar verið iðið við að gera jafntefli. Þrettán leikir liðsins hafa endað með jafntefli og það þýðir að eftir þennan skell gegn Atalanta situr Juventus í fjórða sæti með 52 stig.
Atalanta, sem var þremur stigum á undan fyrir leikinn, er nú komið með 58 stig í þriðja sætinu og er þar með á hælum toppliðanna en Inter Mílanó er með 61 stig og Napoli 60 þegar tíu umferðum er ólokið. Það stefnir því í harða þriggja liða keppni um meistaratitilinn.
Mateo Retegui kom Atalanta yfir úr vítaspyrnu á 29. mínútu og Marten de Roon bætti við marki á fyrstu mínútu síðari hálfleiks.
Davide Zappacosta og Ademola Lookman bættu við mörkum og 4:0-sigur var staðreynd. Þetta er sjöundi leikur Atalanta í röð án taps og liðið hefur haldið markinu hreinu í síðustu fimm leikjum.