Frakklandsmeistarar París SG tryggðu sér í kvöld sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta með sigri á Liverpool í rosalegu einvígi þeirra í 16-liða úrslitum.
Réðust úrslitin í vítakeppni, en staðan eftir tvo heila leiki og framlengingu var samanlagt 1:1. Liverpool vann fyrri leikinn en Ousmane Dembélé skoraði eina markið á Anfield í kvöld á 12. mínútu.
Liverpool var heilt yfir sterkari aðilinn í leiknum og fékk nokkur ákjósanleg færi til að skora. Mo Salah fékk m.a. tvö góð færi snemma leiks og Gianluigi Donnarumma hafði mikið að gera í marki gestanna.
Þrátt fyrir það tókst Liverpool ekki að skora í venjulegum leiktíma og því varð að framlengja. Í framlengingunni virtust gestirnir vera með meiri orku og sköpuðu sér nokkur fín færi en þá var komið að Alisson í marki Liverpool að verja.
Að lokum urðu mörkin þó ekki fleiri og því þurfti vítaspyrnukeppni til að skilja liðin að.
Þar skoruðu gestirnir úr öllum fjórum spyrnum sínum á meðan Donnarumma varði frá Darwin Núnez og Curtis Jones.
PSG mætir annað hvort Aston Villa eða Club Brugge í átta liða úrslitum.