Raphinha og Yamal skutu Barcelona áfram

Lamine Yamal og Raphinha sáu um Benfica í sameiningu.
Lamine Yamal og Raphinha sáu um Benfica í sameiningu. AFP/Josep Lago

Raphinha og Lamine Yamal voru báðir í essinu sínu þegar Barcelona lagði Benfica að velli, 3:1, í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í Barcelona í kvöld.

Barcelona vann fyrri leikinn í Lissabon 1:0, einvígið samanlagt 4:1 og er því komið í átta liða úrslit þar sem liðið mætir annað hvort Hákoni Arnari Haraldssyni og félögum í Lille eða Borussia Dortmund.

Öll mörkin í kvöld komu í fyrri hálfleik. Raphinha braut ísinn á 11. mínútu með skoti á lofti af stuttu færi eftir stórbrotinn undirbúning Yamals.

Aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Nicolás Otamendi metin fyrir Benfica með skalla eftir hornspyrnu.

Eftir tæplega hálftíma leik töfraði Yamal fram annað mark Börsunga þegar glæsilegt skot hans fyrir utan vítateig sveif í fjærhornið, staðan orðin 2:1.

Raphinha innsiglaði svo sigurinn skömmu fyrir leikhlé þegar hann þrumaði boltanum niður í fjærhornið vinstra megin úr vítateignum eftir laglegan undirbúning Alejandro Balde.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert