„Já, ég tel svo vera,“ sagði Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, spurður hvort liðið þurfi að vera upp á sitt allra besta í síðari leik sínum gegn París SG í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.
Liverpool vann fyrri leikinn í París 1:0 þrátt fyrir að PSG hafi ráðið lögum og lofum og síðari leikurinn á Anfield hefst klukkan 20 í kvöld.
„Þetta er fullkomnasta liðið sem við höfum spilað við hingað til. Við höfum mætt Arsenal og Manchester City og það er ekki mikill munur en ákefðin sem PSG sem spilar af auk gæðanna sem þeir búa yfir er ekki auðvelt að spila gegn.
Þeir eru eitt af ríkustu félögunum og eru með frábæran knattspyrnustjóra. Við spilum alla leiki til þess að vinna þá. Það er líka það sem við reyndum í síðustu viku. Við ætluðum okkur ekki að vera svona aftarlega öllum stundum,“ sagði Slot á fréttamannafundi í gær.
„Við viljum spila öðruvísi leik. Markmiðið er alltaf það sama. Við viljum ekki spila upp á jafntefli,“ bætti Hollendingurinn við.