„Besta mark mitt á ferlinum“

Lamine Yamal og Raphinha fagna í gærkvöldi.
Lamine Yamal og Raphinha fagna í gærkvöldi. AFP/Josep Lago

Lamine Yamal, ungstirni Barcelona og spænska landsliðsins, segir glæsimark sem hann skoraði í 3:1-sigri á Benfica í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í gærkvöldi vera sitt besta á ferlinum hingað til.

Yamal er enn aðeins 17 ára gamall og hefur skorað 19 mörk í öllum keppnum fyrir Barcelona og þrjú fyrir spænska landsliðið.

Markið sem hann skoraði í gær var einkar laglegt: hnitmiðað skot fyrir utan vítateig sem sveif í fjærhornið, óverjandi fyrir Anatolii Trubin í marki Benfica.

„Ég tel þetta vera besta mark mitt á ferlinum. Eða ég myndi að minnsta kosti setja það til jafns við markið sem ég skoraði gegn Frakklandi á EM,“ sagði Yamal í samtali við Mundo Deportivo.

Stoðsendingin var skot

Þar viðurkenndi hann að stórglæsileg stoðsending Yamals í fyrsta marki leiksins, sem Raphinha skoraði eftir einstaklingsframtak spænska táningsins, hafi í raun verið skot.

„Ég reyndi satt að segja að skjóta. Ég verð að þakka Raphinha fyrir, hann var vel með á nótunum og náði til skots míns og skoraði. Hann hefur átt virkilega gott tímabil og ég samgleðst honum,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert