Alfons Sampsted, landsliðsmaður í knattspyrnu, var kjörinn maður leiksins af stuðningsmönnum Birmingham City eftir að hafa fengið sjaldgæft tækifæri í byrjunarliðinu í 2:1-sigri á Stevenage í ensku C-deildinni í gærkvöldi.
Alfons gekk til liðs við Birmingham frá Twente síðasta sumar og var einungis um fyrsta byrjunarliðsleik hans í deildinni á tímabilinu að ræða.
Hann krækti í vítaspyrnu sem Kieran Dowell skoraði úr og var tekinn af velli á 70. mínútu eftir góða frammistöðu.
Eftir leikinn var Birmingham með skoðanakönnun á X-aðgangi félagsins um hver af fjórum leikmönnum hafi verið maður leiksins og stóð Alfons uppi sem sigurvegari í kjörinu.
„Mér fannst sem ég hafi komið inn með góða orku. Á þessum tímapunkti á tímabilinu finnst mér sem orkustig sé það sem skipti miklu máli.
Við vitum að við búum yfir gæðunum. Mér fannst ég koma með mikla orku og nýtti tækifærið mitt til hins ýtrasta,“ sagði Alfons í samtali við Birmingham TV eftir leikinn.
Birmingham er komið með 14 stiga forystu á toppi deildarinnar og nánast formsatriði fyrir liðið að tryggja sér sæti í B-deildinni á ný eftir eins árs fjarveru.