Franska liðið Lille, sem landsliðsmaðurinn Hákon Arnar Haraldsson leikur með, á fyrir höndum mikilvægan leik gegn Borussia Dortmund í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld.
Fyrri leiknum í Dortmund lauk með jafntefli, 1:1, þar sem Hákon Arnar skoraði mark Lille og eru Frakkarnir því í prýðisstöðu fyrir síðari leikinn á heimavelli, sem hefst klukkan 17.45.
Sigurvegarinn úr einvíginu mun mæta Barcelona í átta liða úrslitum. Börsungar slógu Benfica auðveldlega úr keppni, samanlagt 4:1, og eru til alls líklegir í keppninni.
Þrír leikir til viðbótar fara fram klukkan 20 í kvöld. Arsenal fær PSV Eindhoven í heimsókn til Lundúna. Fyrri leiknum lauk með 7:1-sigri Arsenal í Hollandi og Skytturnar því svo gott sem komnar áfram.
Aston Villa er sömuleiðis í góðri stöðu gegn Club Brugge eftir að hafa unnið fyrri leikinn í Belgíu 3:1 og á eftir heimaleikinn í Birmingham. Sigurvegarinn mætir París SG í átta liða úrslitum.
Síðast en ekki síst mætast Atlético Madríd og Real Madríd í borgarslag. Real vann fyrri leikinn á heimavelli 2:1 og því er allt opið í einvíginu. Sigurvegari einvígisins mætir Arsenal að öllum líkindum.