Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, var hreykinn af frammistöðu liðs síns þrátt fyrir að liðið hafi fallið úr leik eftir vítaspyrnukeppni gegn París SG í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gærkvöldi.
Staðan var jöfn, 1:1, samanlagt í einvíginu að lokinni framlengingu og voru gestirnir frá París sannfærandi í vítaspyrnukeppninni, en þeir skoruðu úr öllum fjórum spyrnum sínum og unnu þannig 4:1.
„Þetta var besti fótboltaleikur sem ég hef verið hluti af. Þetta var ótrúleg frammistaða, sérstaklega samanborið við frammistöðuna í síðustu viku.
Kannski sagði gæfan skilið við okkur því það var svo mjótt á mununum. Við spiluðum hinn fullkomna leik fyrir utan að við skoruðum ekki mark.
Þetta var svipað og í París í síðustu viku þegar þeir spiluðu hinn fullkomna leik og skoruðu ekki. Svo voru þeir kannski aðeins betri í framlengingunni,“ sagði Slot í samtali við Amazon Prime eftir leikinn í gærkvöldi.