Sögulegt hjá þeim markahæstu

Raphinha og Harry Kane.
Raphinha og Harry Kane. Ljósmynd/Samsett/AFP

Þrír markahæstu leikmenn Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla eru allir búnir að skrá nöfn sín í sögubækur keppninnar með því að vera með flest mörk hjá þjóðum sínum á einu tímabili.

Raphinha er markahæstur með 11 mörk og hefur enginn Brasilíumaður skorað svo mörg mörk á einu tímabili í Meistaradeildinni. Þeim getur enn fjölgað þar sem Barcelona er komið í átta liða úrslit.

Sömu sögu er að segja af Harry Kane, sem er með tíu mörk fyrir Bayern München og er markahæsti Englendingurinn í keppninni á einu tímabili. Bayern er einnig komið í átta liða úrslit.

Serhou Guirassy fagnar marki í leik með Borussia Dortmund.
Serhou Guirassy fagnar marki í leik með Borussia Dortmund. AFP/Patríca de Melo Moreira

Loks er Serhou Guirassy, sóknarmaður Borussia Dortmund, einnig kominn með tíu mörk. Hann er frá Gíneu og hefur enginn landi Guirassy skorað jafn mörg mörk á einu tímabili í Meistaradeildinni.

Dortmund mætir Hákoni Arnari Haraldssyni og félögum í Lille í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert