Knattspyrnumennirnir Manuel Ugarte og Mason Mount eru báðir snúnir aftur til æfinga hjá Manchester United eftir að hafa verið frá vegna meiðsla.
Sky Sports greinir frá því að Ugarte og Mount hafi báðir tekið þátt í æfingu liðsins í dag en Man. United á fyrir höndum leik gegn Orra Steini Óskarssyni og félögum í Real Sociedad í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar á morgun.
Ugarte hefur misst af undanförnum leikjum vegna smávægilegra meiðsla en Mount hefur lítið getað spilað á tímabilinu vegna þrálátra meiðsla.
Miðverðirnir Harry Maguire og Leny Yoro tóku hins vegar ekki þátt í æfingunni í dag vegna meiðsla og verða ekki með á Old Trafford annað kvöld. Fyrri leiknum á Spáni lauk með jafntefli, 1:1.