Kominn aftur í franska landsliðið

Kylian Mbappé er á ný í franska landsliðshópnum í knattspyrnu eftir hálfs árs fjarveru en Frakkar mæta Króötum í átta liða úrslitum Þjóðadeildarinnar í næstu viku.

Mbappé lék ekki með Frökkum í keppninni í október og nóvember en hann hefur verið á góðu róli með Real Madrid, skorað 18 mörk í 25 leikjum í spænsku 1. deildinni og átta mörk í 13 Evrópuleikjum á tímabilinu.

Didier Deschamps landsliðsþjálfari valdi hann ekki í umrædda landsleiki og sagðist ekki vilja taka áhættu með Mbappé vegna meiðslahættu.

Kylian Mbappé er líklegur til að slá markamet franska landsliðsins …
Kylian Mbappé er líklegur til að slá markamet franska landsliðsins fljótlega. AFP/Franck Fife

Síðustu landsleikir framherjans voru gegn Ítalíu og Belgíu í september en hann hefur skorað 48 mörk í 86 landsleikjum fyrir Frakkland og er þriðji markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi, á eftir Olivier Giroud (57) og Thierry Henry (51). Þar sem Mbappé er aðeins 26 ára gamall er afar líklegt að hann eigi eftir að slá markametið innan tíðar.

Fyrri leikur Frakka og Króata fer fram í Split næsta fimmtudag, 20. mars, og sá seinni í París þremur dögum síðar.

Desire Doue, sem lék mjög vel með París SG gegn Liverpool á dögunum, er í franska landsliðshópnum í fyrsta skipti.

Franski hópurinn er þannig skipaður:

Markverðir: Mike Maignan (AC Milan), Brice Samba (Lens), Lucas Chevalier (Lille).

Varnarmenn: Lucas Digne (Aston Villa), Theo Hernandez (AC Milan), Ibrahima Konaté (Liverpool), William Saliba (Arsenal), Dayot Upamecano (Bayern München), Jonathan Clauss (Nice), Benjamin Pavard (Inter Mílanó), Jules Kounde (Barcelona).

Miðjumenn: Aurelien Tchouameni (Real Madrid), Eduardo Camavinga (Real Madrid), Matteo Guendouzi (Lazio), Adrien Rabiot (Marseille), Warren Zaire-Emery (París SG), Manu Kone (Roma).

Framherjar: Marcus Thuram (Inter Mílanó), Bradley Barcola (París SG), Desire Doue (París SG), Randal Kolo Muani (París SG), Kylian Mbappé (Real Madrid), Michael Olise (Bayern München), Marcus Thuram (Inter Mílanó), Ousmane Dembélé (París SG).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert