Enska liðið Manchester United mætir Lyon í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu eftir sigur á spænska liðinu Real Sociedad, 4:1, í seinni leik liðanna í 16-liða úrslitunum á Old Trafford í Manchester-borg í kvöld. Fyrri leik liðanna á Spáni lauk með jafntefli, 1:1, svo United vinnur einvígið samanlagt 5:2.
Orri Steinn Óskarsson byrjaði leikinn á varamannabekk Real Sociedad en kom inná og lék síðasta korterið. Bruno Fernandes skoraði þrennu fyrir heimamenn, þar af tvö úr vítaspyrnum, en landi hans Diogo Dalot bætti fjórða markinu við í uppbótartíma. Mikel Oyarzabal skoraði mark Sociedad, einnig úr vítaspyrnu.
Gestirnir byrjuðu af krafti og voru betri aðilinn fyrsta korterið eða svo. Strax á 10. mínútu fengu þeir vítaspyrnu eftir að Matthjis De Ligt braut á Mikel Oyarzabal innan teigs. Upphaflega var dæmt brot á Oyarzabal en eftir VAR-skoðun var dómnum réttilega breytt í vítaspyrnu sem Oyarzabal skoraði sjálfur úr af öryggi og kom Sociedad yfir.
Sex mínútum síðar fengu heimamenn svo vítaspyrnu eftir að Igor Zubeldia braut á Dananum Rasmus Hojlund innan teigs. Á punktinn fór Bruno Fernandes og skoraði hann af miklu öryggi og jafnaði þar með metin í 1:1.
Eftir jöfnunarmarkið voru heimamenn sterkari aðilinn og fengu nokkur fín færi. Hojlund fékk líklega besta færi fyrri hálfleiksins en setti boltann í stöngina og framhjá markinu af stuttu færi eftir frábæran undirbúning Joshua Zirkzee. Staðan í hálfleik var því 1:1 í leiknum og 2:2 í einvíginu.
Þegar að einungis fimm mínútur voru liðnar af seinni hálfleik komust heimamenn í United svo yfir og enn kom markið úr vítaspyrnu. Patrick Dorgu var þá felldur innan teigs og aftur skoraði Bruno Fernandes af gífurlegu öryggi.
Eftir rúmlega klukkutíma leik urðu gestirnir svo manni færri. Varamaðurinn Jon Aramburu, sem hafði komið inná 10 mínútum áður, lenti þá á eftir Dorgu sem aftasti maður og hljóp hann niður. Hárréttur dómur og algjör martraðarinnkoma hjá Aramburu.
Heimamenn voru líklegri aðilinn til að bæta við marki það sem eftir lifði leiks en Joshua Zirkzee fékk tvö afbragðsfæri með skömmu millibili þegar um 10 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Fyrst varði Alex Remiro skot hans úr teignum og andartaki síðar lak skalli Hollendingsins rétt framhjá markstönginni.
Á 87. mínútu fullkomnaði Bruno Fernandes svo þrennu sína og gerði um leið út um einvígið. Eftir vel útfærða skyndisókn setti Alejandro Garnacho boltann í gegn á Fernandes sem smellti boltanum óverjandi út við stöng og kom heimamönnum í 3:1.
Á fyrstu mínútu uppbótartímans gerði Diogo Dalot svo fjórða mark heimamanna. Rasmus Hojlund gerði þá vel vinstra megin í teignum og smellti boltanum svo fyrir markið með grasinu þar sem Dalot mætti og setti hann fastan í þaknetið þar sem Remiro kom engum vörnum við.
Fleiri urðu mörkin ekki og Manchester United er því komið áfram í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar og mætir þar franska liðinu Lyon. Real Sociedad er hins vegar úr leik þetta árið.