Glódís Perla Viggósdóttir og liðsfélagar hennar í Bayern München unnu afar sterkan sigur á Sveindísi Jane Jónsdóttur og stöllum í Wolfsburg, 3:1, í toppslag í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu í dag.
Glódís Perla fór meidd af velli í byrjun síðari hálfleiks eins og áður var greint frá og Sveindís Jane kom inn á sem varamaður á 68. mínútu hjá Wolfsburg.
Þýskalandsmeistarar Bayern eru á toppnum með 44 stig en Wolfsburg er í þriðja sæti með 38 stig. Eintracht Frankfurt er í öðru sæti, einnig með 38 stig, og á leik til góða.
Pernille Harder skoraði tvívegis og Lea Schüller einu sinni fyrir heimakonur í Bayern og komu þær liðinu þannig í 3:0.
Lineth Beerensteyn minnkaði muninn fyrir Wolfsburg stundarfjórðungi fyrir leikslok en þar við sat.