Framlengdi við Barcelona

Inigo Martínez fagnar marki í leik með Barcelona á tímabilinu.
Inigo Martínez fagnar marki í leik með Barcelona á tímabilinu. AFP/Lluis Gene

Spænski knattspyrnumaðurinn Inigo Martínez hefur skrifað undir nýjan samning við spænska stórveldið Barcelona sem gildir til sumarsins 2026.

Martínez, sem er 33 ára, hefur verið lykilmaður í miðri vörn Barcelona á tímabilinu eftir að hafa verið í aukahlutverki á því síðasta.

Hann kom á frjálsri sölu frá Athletic Bilbao sumarið 2023 og skrifaði þá undir tveggja ára samning. Mikil ánægja ríkir með Martínez og verður hann því að minnsta kosti eitt tímabil til viðbótar hjá Börsungum.

Góð frammistaða Martínez hefur skilað honum í spænska landsliðið að nýju en hann spilaði síðast landsleik fyrir tveimur árum og er einn af sjö leikmönnum Barcelona í nýjasta landsliðshóp Evrópumeistaranna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert