Albert Guðmundsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, skoraði í gær þegar Fiorentina gerði sér lítið fyrir og lagði gamla stórveldið Juventus að velli, 3:0, í ítölsku A-deildinni á heimavelli sínum í Flórens.
Robin Gosens og Rolando Mandragora komu Fiorentina í 2:0 á fyrstu 18 mínútum leiksins. Nicolo Fagioli lagði upp annað markið og á 53. mínútu átti hann aðra stoðsendingu, að þessu sinni á Albert sem skoraði, 3:0.
Albert fór síðan af velli á 79. mínútu leiksins. Hann hefur nú skorað í tveimur leikjum í röð og sex mörk alls fyrir Fiorentina í deildinni í vetur.
Fiorentina fór upp fyrir AC Milan og í áttunda sæti deildarinnar með þessum sigri og er nú með 48 stig. Juventus er dottið niður í fimmta sætið með 52 stig og endanlega úr leik í baráttunni um meistaratitilinn.