Jón fékk langþráð tækifæri

Jón Dagur Þorsteinsson fékk loksins tækifæri í dag.
Jón Dagur Þorsteinsson fékk loksins tækifæri í dag. Ljósmynd/Alex Nicodim

Jón Dagur Þorsteinsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, fékk í dag langþráð tækifæri með liði Herthu frá Berlín í þýsku B-deildinni þegar liðið vann stórsigur gegn Braunschweig á útivelli, 5:1.

Jón Dagur hafði setið sem fastast á varamannabekk Berlínarliðsins í níu leikjum í röð í deildinni en í dag var honum skipt inn á sem varamanni á 76. mínútu leiksins, þegar staðan var 4:0.

Fram að því hafði Jón spilað tólf af þrettán leikjum liðsins eftir að hann kom til félagsins frá OH  Leuven í Belgíu í ágúst.

Lið Herthu hefur verið í miklu basli undanfarnar vikur en vann loksins leik. Berlínarliðið hafði aðeins unnið einn af síðustu níu leikjum. Viðureignin í dag var fallbaráttuslagur en Hertha fór upp í 14. sæti með sigrinum og skildi Braunschweig eftir í sextánda og þriðja neðsta sætinu, sex stigum neðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert