Náðu í stig gegn stórliðinu

Giovanni Di Lorenzo hjá Napoli í góðu færi í leiknum …
Giovanni Di Lorenzo hjá Napoli í góðu færi í leiknum í dag en Ionut Radu markvörður Venezia ver frá honum. AFP/Andrea Pattaro

Íslendingaliðið Venezia náði í nokkuð óvænt stig á heimavelli gegn Napoli í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í dag.

Leikurinn í Feneyjum endaði með markalausu jafntefli en Venezia er næstneðst í deildinni með 20 stig og Napoli er með 61 stig í öðru sæti, jafnmörg og Inter Mílanó sem á nú leik til góða. Þetta voru því tvö töpuð stig fyrir Napoli í meistarabaráttunni.

Venezia er hins vegar  fimm stigum frá því að komast úr fallsæti en Lecce og Parma eru í 16. og 17. sæti með 25 stig.

Mikael Egill Ellertsson var að vanda í byrjunarliði Venezia og var skipt af velli á 87. mínútu en Bjarki Steinn Bjarkason var á varamannabekknum allan tímann. Þeir eru báðir á leið til móts við íslenska landsliðið sem kemur saman á Spáni á morgun fyrir leikina tvo gegn Kósóvó í umspili Þjóðadeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert