Árslaun knattspyrnukvenna í heiminum nema að meðaltali rúmlega 1,4 milljónum íslenskra króna og mánaðarlaun þeirra eru því að meðaltali aðeins tæplega 120 þúsund krónur.
Þetta kemur fram í árlegri skýrslu Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, um stöðu mála hjá konum í íþróttinni en hún var birt í dag.
Tölurnar eru byggðar á upplýsingum sem FIFA fékk frá 677 félögum í 90 mismunandi deildum víðs vegar um heim.
FIFA flokkar þessi félög í þrjá hópa eftir getustigi þar sem 41 félag kemst í fyrsta flokk. Þar nema meðallaunin um 3,2 milljónum króna á ári, og mánaðarlaunin því um 270 þúsund krónur.
Hins vegar er staðan allt önnur þegar launin eru reiknuð út hjá sextán stærstu félögunum. Þá eru mánaðarlaunin að meðaltali um 560 þúsund krónur. Þær launahæstu eru sagðar vera með rúmlega 1,3 milljónir króna í mánaðarlaun.
Í skýrslunni kemur fram að konur hjá félögum í fyrsta flokki séu flestar með eins til þriggja ára samninga á meðan konur sem leika með félögum í þriðja flokki séu oftast með aðeins þriggja mánaða samninga eða skemmri.
Hluti af skýringunni á lágum launum kvenna í knattspyrnu liggur í takmarkaðri aðsókn. Lið í fyrsta flokki hjá FIFA voru með 1.713 áhorfendur að meðaltali á sínum heimaleikjum á meðan lið í öðrum og þriðja flokki voru með 380 til 480 áhorfendur að meðaltali.
Þá kemur fram að konur þjálfi einungis 22 prósent kvennaliða í heiminum. Hærri tölur eru í dómgæslunni þar sem konur dæma 42 prósent kvennaleikja, þar af 57 prósent í fyrsta flokki.