Lionel Messi getur ekki leikið með Argentínu gegn tveimur af skæðustu keppinautunum í undankeppni HM í knattspyrnu í Suður-Ameríku á næstu dögum.
Argentínumenn sækja Úrúgvæ heim á föstudagskvöldið og taka svo á móti Brasilíu á þriðjudagskvöldið.
Messi fór í myndatöku eftir leik með Inter Miami gegn Atlanta United í bandarísku MLS-deildinni í gærkvöld. Þar var staðfest að hann væri með smávægilega tognun í nára og því ekki leikfær næstu dagana.
Messi spilaði allan leikinn í Atlanta og skoraði fyrra markið í góðum útisigri Inter, 2:1. Liðið hefur farið vel af stað og er á toppi Austurdeildar með 10 stig úr fyrstu fjórum leikjum sínum á tímabilinu.
Argentínumenn eru efstir í undankeppni HM þegar 12 umferðir eru búnar af 18 í Suður-Ameríku, eru með 25 stig en Úrúgvæ er með 20 stig í öðru sætinu. Sex efstu þjóðirnar fara beint á HM 2026 í Norður-Ameríku og sú sjöunda fer í umspil.