Forráðamenn búlgarska knattspyrnuliðsins Arda Kardzhali hlupu heldur betur á sig í gær áður en leikur þess gegn Levski Sofía í efstu deild karla var flautaður á.
Fyrir leikinn stilltu bæði liðin sér upp í miðjuhringnum og lutu höfði til að minnast Petko Ganchevs, fyrrverandi leikmanns Arda, sem var sagður hafa látist skömmu áður.
En skömmu áður en leiknum lauk birti Arda afsökunarbeiðni á Facebook-síðu sinni þar sem fram kom að félagið hefði fengið rangar upplýsingar um meint andlát Ganchevs, sem er 25 ára gamall.
„Stjórn PFC Arda vill biðja Petko Ganchev og fjölskyldu hans innilega afsökunar. Við óskum Petko Ganchev góðrar heilsu um mörg ókomin ár og að hann geti glaðst yfir árangri Arda."