Þýska knattspyrnumanninum Vitaly Janelt, miðjumanni Brentford, hefur verið veittur bosnískur ríkisborgararéttur. Bosníska knattspyrnusambandið hefur þá hafið viðræður við FIFA með það fyrir augum að hann spili fyrir landslið þjóðarinnar.
Janelt, sem er fæddur og uppalinn í Þýskalandi, á rætur að rekja til Bosníu og Hersegóvínu auk þess sem eiginkona hans er þaðan.
Hann lék fyrir öll yngri landslið Þýskalands en fékk aldrei kallið í A-landsliðið og hefur nú ákveðið að reyna fyrir sér með Bosníu.
Janelt, sem er 26 ára gamall, hefur leikið 131 leik fyrir Brentford í ensku úrvalsdeildinni og skorað í þeim níu mörk frá árinu 2021, en hann fór upp úr ensku B-deildinni með liðinu tímabilið á undan.