Alexander Straus, knattspyrnustjóri kvennaliðs Bayern München, bindur vonir við að fyrirliði sinn, Glódís Perla Viggósdóttir, geti tekið þátt í fyrri leik liðsins gegn Lyon í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.
Glódís Perla, sem vart hefur misst af leik vegna meiðsla á ferli sínum, lék ekki með Bayern gegn Köln í þýsku 1. deildinni um þarsíðustu helgi vegna hnémeiðsla og fór svo meidd af velli í toppslag gegn Wolfsburg síðastliðinn föstudag.
Hún hafði fengið höfuðhögg snemma leiks gegn Wolfsburg en í samtali við DAZN sagði Straus það ekki hafa verið ástæðuna fyrir því að Glódís Perla hafi farið af velli snemma í síðari hálfleik í þeim leik.
„Það hafði ekkert með neinn svima að gera. Hún fann fyrir einhverjum eymslum í leikhléi en ég reyndi samt að láta hana spila áfram. Eftir nokkrar mínútur í síðari hálfleik ákváðum við að skipta henni af velli þar sem við vildum ekki taka frekari áhættu.
Ég vona að hún geti spilað gegn Lyon en við tökum ekki óþarfa áhættu. Hún er okkur gífurlega mikilvæg þannig að við munum sjá til,“ sagði Straus um landsliðsfyrirliðann.