Sveindís Jane Jónsdóttir og liðsfélagar hennar í Wolfsburg eru í þröngri stöðu eftir stórt tap gegn Barcelona í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar kvenna í fótbolta í Wolfsburg í kvöld.
Leiknum lauk með öruggum sigri Barcelona, 4:1, en Sveindís Jane Jónsdóttir kom inn á sem varamaður hjá Wolfsburg á 59. mínútu.
Barcelona komst í 3:0 með mörkum frá þeim Caitlin Dijkstra, Irenu Paredes og Sölmu Paralluelo áður en Janina Minge minnkaði muninn fyrir Wolfsburg á 79. mínútu. Sydney Schertenleib bætti við fjórða marki Barcelona á lokamínútunum og þar við sat.
Síðari leikur liðanna fer fram á þriðjudaginn í næstu viku á Spáni en sigurvegarinn úr einvíginu mætir Manchester City eða Chelsea í undanúrslitum keppninnar.