Amir Rrahmani, fyrirliði karlalandsliðs Kósovó í knattspyrnu og leikmaður ítalska stórliðsins Napoli, virðist hafa hrist af sér meiðsli sem hann varð fyrir um helgina og gert er ráð fyrir að hann geti spilað gegn Íslandi annað kvöld.
Kósovó og Ísland leika fyrri leik sinn í umspilinu um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar í Pristína í Kósovó annað kvöld klukkan 19.45 að íslenskum tíma.
Tvísýnt þótti hvort Rrahmani gæti spilað leikinn en kósovóskir fréttamenn gera nú ráð fyrir honum í hjarta varnarinnar. Hann er leikjahæsti landsliðsmaður Kósovó frá upphafi með 62 landsleiki og hefur spilað 137 leiki með Napoli í ítölsku A-deildinni frá árinu 2020 en hann varð meistari með liðinu árið 2023 og spilaði þá 29 af 38 leikjum liðsins í deildinni.
Í vetur hefur hann verið í byrjunarliðinu í öllum 29 leikjum Napoli sem er í öðru sæti A-deildarinnar og berst við Inter Mílanó og Atalanta um ítalska meistaratitilinn.
Kósovóar sakna tveggja sterkra leikmanna í viðureignunum gegn Íslandi. Edon Zhegrova, miðjumaður Lille í Frakklandi og samherji Hákons Arnars Haraldssonar þar, er frá vegna meiðsla og Muharrem Jashari, miðjumaður Cherkasy í Úkraínu, er í leikbanni.
Samkvæmt fjölmiðlum í Kósovó er líkleg uppstilling liðsins gegn Íslandi svona:
Mark:
Arijanet Muric, Ipswich (Englandi)
Vörn:
Mergim Vojvoda, Como (Ítalíu)
Amir Rrahmani, Napoli (Ítalíu)
Lumbardh Dellova, CSKA Sofia (Búlgaríu)
Leart Paqarada, Köln (Þýskalandi)
Miðja:
Donat Rrudhani, Luzern (Sviss)
Elvis Rexhbecaj, Augsburg (Þýskalandi)
Florent Muslija, Freiburg (Þýskalandi)
Milot Rashica, Besiktas (Tyrklandi)
Sókn:
Albion Rrahmani, Sparta Prag (Tékklandi)
Vedat Muriqi, Mallorca (Spáni)