„Svara ekki spurningum frá þér“

Unai Simon fagnar eftir sigur Spánar á Englandi í úrslitaleik …
Unai Simon fagnar eftir sigur Spánar á Englandi í úrslitaleik EM 2024 í Þýskalandi. AFP/Jewel Samad

Unai Simón, markvörður Evrópumeistara Spánar í knattspyrnu, neitaði að svara spurningu fréttamanns á fréttamannafundi í gær vegna þess að þeim lenti saman eftir leik Spánar gegn Þýskalandi á EM 2024 síðasta sumar.

„Fernando, með fullri virðingu í garð kollega okkar og allra annarra, eftir það sem gerðist á milli okkar á EM ætla ég ekki að svara neinni spurningu frá þér,“ sagði Simón er fréttamaðurinn Fernando Burgos hjá útvarpsstöðinni Onda Cero vildi bera upp spurningu.

Eftir 2:1-sigur Spánar á Þýskalandi í átta liða úrslitum EM varð Simón pirraður á fullyrðingum og spurningum Burgos, sem hraunaði svo yfir markvörðinn í útvarpsútsendingu.

Þar sagði hann um Simón: „Hann er Marsbúi og hann getur ekki komið á fréttamannafund með þessu viðhorfi. Það gerir mig reiðan að spyrja svona fólk spurninga.

Það er ömurlegt og sorglegt. Hann ætti ekki að koma aftur hingað. Ég vil ekki einu sinni sjá hann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert