United gæti skipt á framherjum við Napoli

Rasmus Höjlund.
Rasmus Höjlund. AFP/Adrian Dennis

Forráðamenn ítalska knattspyrnufélagsins Napoli hafa mikinn áhuga á danska framherjanum Rasmus Höjlund.

Það er Gazetta dello Sport sem greinir frá þessu en Höjlund, sem er 22 ára gamall, er samningsbundinn Manchester United.

Forráðamenn United eru sagðir opnir fyrir því að selja framherjann en vilja fá í kringum 50 milljónir punda fyrir hann.

Það er upphæð sem ítalska félagið ræður illa við en félagið íhugar nú að setja nígeríska framherjann Victor Osimhen upp í kaupin.

Osimhen, sem er 26 ára gamall, er sem stendur á láni hjá Galatasaray í Tyrklandi þar sem hann hefur skorað 20 mörk í 22 leikjum í tyrknesku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert