Varði víti í fyrsta leik eftir fjarlægingu æxlis

Mala Grohs fagnar eftir að hafa varið vítaspyrnu í gærkvöldi.
Mala Grohs fagnar eftir að hafa varið vítaspyrnu í gærkvöldi. AFP/Alexandra Beier

Þýski knattspyrnumarkvörðurinn Mala Grohs sneri aftur á völlinn í gærkvöldi og varði vítaspyrnu þegar lið hennar Bayern München tapaði 0:2 fyrir Lyon í átta liða úrslitum í Meistaradeild Evrópu. Grohs greindist með illkynja æxli í nóvember síðastliðnum.

Við greiningu fór hún tafarlaust í veikindaleyfi og gekkst svo undir skurðaðgerð skömmu fyrir jól til að fjarlægja æxli í hálsi.

Aðgerðin gekk vel og sömuleiðis endurhæfingin þar sem Grohs hóf æfingar að nýju fyrir rúmum tveimur mánuðum.

Þrátt fyrir tapið í gærkvöldi var endurkoman ánægjuleg fyrir hana þar sem Grohs varði vítaspyrnu frá Lindsey Heaps með glæsilegum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert