Króatar, Danir og Þjóðverjar unnu

Rasmus Höjlund fagnar sigurmarki sínu fyrir Dani gegn Portúgölum.
Rasmus Höjlund fagnar sigurmarki sínu fyrir Dani gegn Portúgölum. AFP/Liselotte Sabroe

Króatía, Danmörk og Þýskaland unnu í kvöld fyrri leikina í átta liða úrslitum Þjóðadeildar karla í fótbolta, gegn Frökkum, Portúgölum og Ítölum en Holland og Spánn gerðu jafntefli.

Ante Budimir og Ivan Perisic komu Króötum í 2:0 í fyrri hálfleik gegn Frökkum í Split en áður hafði Mike Maignan í marki Frakka varið vítaspyrnu frá Andrej Kramaric. Þar við sat og króatíska liðið  fer með tveggja marka forskot til Frakklands.

Þýskur sigur í Mílanó

Sandro Tonali kom Ítölum yfir strax á 9. mínútu leiksins gegn Þjóðverjum í Mílanó, 1:0 og þannig var staðan í hálfleik. Tim Kleindienst jafnaði fyrir Þjóðverja á 49. mínútu eftir sendingu frá Joshua Kimmich.

Kimmich var síðan aftur á ferðinni á 76. mínútu þegar hann lagði upp mark fyrir Leon Goretzka og Þjóðverjar voru komnir í 2:1. Þetta reyndist sigurmarkið.

Merino bjargaði Spánverjum

Nico Williams skoraði fyrir Spánverja strax á 9. mínútu í Rotterdam eftir sendingu frá Pedri en á 28. mínútu lagði Justin Kluivert upp jöfnunarmark fyrir Cody Gakpo, 1:1.

Hollendingar náðu forystunni á fyrstu mínútu síðari hálfleiks þegar Tijani Reijnder skoraði eftir sendingu frá Jeremie Frimpong, 2:1. Hollendingar misstu Jorrel Hato af velli með rautt spjald á 82. mínútu. Spánverjar náðu að nýta sér liðsmuninn og Mikel Merino jafnaði, 2:2, á þriðju mínútu uppbótartímans.

Höjlund hetja Dana

Á Parken í Kaupmannahöfn varði Diego Costa markvörður Portúgala varði vítaspyrnu Danans Christians Eriksens á 24. mínútu. Danir náðu forystunni á 79. mínútu þegar Rasmus Höjlund skoraði eftir sendingu frá Andreas Skov Olsen, 1:0.

Seinni leikir liðanna fara fram á sunnudagskvöldið og þá kemur í ljós hvaða fjögur lið komast í undanúrslit keppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert