Kínverski knattspyrnumaðurinn Guo Jiaxuan lést í gær, degi fyrir 19 ára afmælið sitt. Guo varð fyrir alvarlegum höfuðmeiðslum í leik með U20-ára liði Peking gegn liði Alcobendas í Madríd á Spáni og var stuttu síðar úrskurðaður heiladauður á sjúkrahúsi þar í borg.
AFP fréttaveitan skýrir frá því að hann hafi verið í dái og eftir að heilsu Guo hrakaði enn frekar hafi hann verið fluttur með flugi á sjúkrahús í Peking, þar sem Guo lést í gærkvöldi.
Fjölskylda Guo hefur sakað knattspyrnusamband Peking um að leyna hana upplýsingum og láta farast fyrir að vera í samskiptum við fjölskylduna.
„Við viljum bara sannleikann og réttlæti,“ skrifaði bróðir hans á samfélagsmiðla fyrr í vikunni.
Að svo stöddu liggur ekki fyrir nákvæmlega hvernig Guo, sem var efnilegur varnarmaður, slasaðist svo alvarlega í knattspyrnuleiknum sem hann spilaði í Madríd.
Guo var á sínum tíma á mála hjá þýska stórliðinu Bayern München þar sem hann lék með unglingaliðum félagsins.