Knattspyrnumaðurinn Louis Buffon, sonur ítölsku goðsagnarinnar Gianluigi Buffon, hefur þekkst boð tékkneska knattspyrnusambandsins um að leika fyrir yngri landslið þjóðarinnar.
Louis er 17 ára gamall kantmaður Pisa, sem leikur í ítölsku B-deildinni, og mun spila sína fyrstu leiki fyrir U18-ára landslið Tékklands í landsleikjaglugganum. Liðið mætir Englandi, Frakklandi og Portúgal í aldursflokknum á næstu dögum.
Móðir Louis, fyrirsætan Alena Seredova, er frá Tékklandi og hyggst hann vera fæðingarlandi móður sinnar trúr.
„Ég talaði við fjölskylduna mína og við ákváðum í sameiningu að það að spila fyrir Tékkland yrði best fyrir knattspyrnuferil minn og þróun mína sem leikmaður,“ sagði Louis í samtali á heimasíðu tékkneska knattspyrnusambandsins.
Faðir hans Gianluigi lék á sínum tíma 176 A-landsleiki fyrir Ítalíu og er leikjahæstur í sögu þjóðarinnar. Varð hann heimsmeistari með liðinu árið 2006.