Sonur Buffon spilar fyrir aðra þjóð

Gianluigi Buffon.
Gianluigi Buffon. AFP

Knattspyrnumaðurinn Louis Buffon, sonur ítölsku goðsagnarinnar Gianluigi Buffon, hefur þekkst boð tékkneska knattspyrnusambandsins um að leika fyrir yngri landslið þjóðarinnar.

Louis er 17 ára gamall kantmaður Pisa, sem leikur í ítölsku B-deildinni, og mun spila sína fyrstu leiki fyrir U18-ára landslið Tékklands í landsleikjaglugganum. Liðið mætir Englandi, Frakklandi og Portúgal í aldursflokknum á næstu dögum.

Móðir Louis, fyrirsætan Alena Seredova, er frá Tékklandi og hyggst hann vera fæðingarlandi móður sinnar trúr.

„Ég talaði við fjölskylduna mína og við ákváðum í sameiningu að það að spila fyrir Tékkland yrði best fyrir knattspyrnuferil minn og þróun mína sem leikmaður,“ sagði Louis í samtali á heimasíðu tékkneska knattspyrnusambandsins.

Faðir hans Gianluigi lék á sínum tíma 176 A-landsleiki fyrir Ítalíu og er leikjahæstur í sögu þjóðarinnar. Varð hann heimsmeistari með liðinu árið 2006.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert