Rasmus Höjlund, sóknarmaður Manchester United og danska landsliðsins, segir fagn sitt eftir að hafa skorað sigurmarkið í 1:0-sigri Danmerkur á Portúgal í gærkvöldi ekki hafa verið til þess fallið að gera lítið úr átrúnaðargoði sínu Cristiano Ronaldo.
Höjlund fagnaði með svokölluðu „siu“ fagni sem Ronaldo hefur verið þekktur fyrir í gegnum tíðina.
„Þetta var ekki til að lítillæka hann eða neitt svoleiðis. Ég hef alltaf sagt að hann hafi verið mér og knattspyrnuferli mínum mikilvægur.
Ég er að spila gegn besta knattspyrnumanni heims, átrúnaðargoði mínu, og að skora það sem reyndist vera sigurmarkið gæti ekki verið betra. Að skora gegn Portúgal er risastórt.
Ég fór að sjá hann árið 2009 þegar hann skoraði beint úr aukaspyrnu og hef verið aðdáandi allar götur síðan,“ sagði Höjlund í samtali við dönsku sjónvarpsstöðina TV2 eftir leik.
Hann er 22 ára gamall og var því sex ára árið 2009.