Blikinn fyrrverandi í norsku C-deildina

Benjamin Stokke í leik með Blikum síðasta sumar.
Benjamin Stokke í leik með Blikum síðasta sumar. mbl.is/Arnþór Birkisson

Norski knattspyrnumaðurinn Benjamin Stokke er genginn til liðs við norska C-deildarfélagið Eik Tönsberg.

Þetta tilkynnti félagið á samfélagsmiðlum sínum en Stokke, sem er 34 ára gamall, varð Íslandsmeistari með Breiðabliki á síðustu leiktíð.

Hann gekk til liðs við Blika fyrir síðasta tímabil eftir að hafa orðið markahæstur í norsku B-deildinni með Kristiansund. Á ferli sínum í Noregi hefur Stokke skorað 103 mörk í 317 deildaleikjum, þar af 22 mörk í úrvalsdeildinni. Þá skoraði hann fimm mörk í 38 leikjum fyrir Randers í dönsku úrvalsdeildinni.

Hann skoraði fjögur mörk í 23 leikjum með Blikum á síðustu leiktíð en hann lék lítið með liðinu seinni hluta tímabilsins eftir að Ísak Snær Þorvaldsson snéri aftur í Kópavoginn á láni frá Rosenborg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert