Emilio Nsue, markahæsti leikmaður í sögu karlaliðs Miðbaugs-Gíneu í knattspyrnu, er kominn aftur í landsliðið, tæpu ári eftir að FIFA úrskurðaði að hann hafi aldrei verið gjaldgengur til þess að spila fyrir liðið.
Knattspyrnusamband Miðbaugs-Gíneu kveðst hafa óskað eftir því við FIFA árið 2013 að Nsue fengi að skipta um ríkisfang en FIFA kannast ekki við að slík beiðni hafi borist. Í fyrstu tveimur landsleikjunum sem hann tók þátt í með Miðbaugs-Gíneu var andstæðingunum dæmdur 3:0-sigur.
Þrátt fyrir það hélt Nsue áfram að spila fyrir landsliðið og raðaði inn mörkum. Það var svo ekki fyrr en síðasta sumar sem Nsue var úrskurðaður í sex mánaða bann frá landsliðsfótbolta og átti ekki endurkvæmt í landsliðið þar sem formlegt leyfi fékkst aldrei fyrir því að hann skipti um ríkisfang, en Nsue lék fyrir yngri landslið Spánar.
FIFA greindi frá því síðasta sumar að knattspyrnusamband Miðbaugs-Gíneu hafi á sínum tíma óskað eftir því við knattspyrnusamband Spánar að Nsue fengi að skipta um ríkisfang en að slík beiðni hafi sem áður segir ekki borist til FIFA.
Sambandið í Miðbaugs-Gíneu lagði fram aðra beiðni á þessu ári og í byrjun marsmánaðar, tólf árum síðar, samþykkti FIFA að Nsue væri gjaldgengur til að spila fyrir Miðbaugs-Gíneu.
Liðið vann Saó Tóme og Prinsípe 2:0 í undankeppni HM 2026 í dag þar sem hann skoraði vitanlega í endurkomunni, sitt 24. mark í 44. landsleiknum.