Heimir telur Íra geta gert betur

Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. Ljósmynd/Írska knattspyrnusambandið

Heimir Hallgrímsson, þjálfari írska karlalandsliðsins í knattspyrnu, segir lærisveina sína geta gert betur þrátt fyrir að hafa unnið góðan útisigur á Búlgaríu, 2:1, í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar í gærkvöldi.

Síðari leikurinn fer fram í Dyflinni á sunnudag og Írland því í góðri stöðu fyrir hann.

Búlgaría komst snemma yfir í leik gærkvöldsins en Írland sneri taflinu við áður en fyrri hálfleikur var úti.

„Við getum gert aðeins betur. Þetta var bara fyrri leikurinn af tveimur. Við hlökkum til að fara til Dyflinnar og spila við þá á heimavelli.

Mér fannst fyrri hálfleikur mjög góður hjá okkur þó við höfum verið óheppnir að þeir skoruðu úr sinni fyrstu sókn. Eftir að þeir skoruðu var ég bara að vonast til þess að við myndum halda áfram að gera það sem við ætluðum að gera.

Við gerðum það og áttum nokkrar mjög góðar sóknir. Það var það sem við vildum að þeir gerðu og ég var ánægður í hálfleik,“ sagði Heimir í samtali við írska ríkisútvarpið eftir leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert