Varamaðurinn Trincao reyndist hetja Portúgals í sigri liðsins á Danmörku, 5:2, eftir framlengdan leik í átta liða úrslitum Þjóðadeildar Evrópu í knattspyrnu í Portúgal í kvöld.
Danmörk vann fyrri leikinn, 1:0, á Parken en Portúgal fer því 5:3-samanlagt áfram.
Portúgal komst yfir í fyrri hálfleik þökk sé sjálfsmarki Dana en Rasmus Kristensen jafnaði metin fyrir þá dönsku á 56. mínútu, 1:1.
Cristiano Ronaldo kom Portúgal í 2:1 á 72. mínútu en aðeins fjórum mínútum síðar jafnaði Christian Eriksen metin, 2:2.
Trincao kom Portúgal í 3:2 á þeirri 86. og tryggði liðinu framlengingu. Hann skoraði síðan fjórða mark Portúgals á fyrstu mínútu framlengingarinnar.
Það var svo Goncalo Ramos sem skoraði fimmta mark Portúgals.
Evrópumeistarar Spánar eru þá einnig komnir áfram eftir sigur á Hollandi í vítakeppni en liðin léku á Spáni í kvöld.
Venjulegum leiktíma lauk með 2:2-jafntefli líkt og fyrri leiknum en liðin skoruðu hvort markið fyrir sig í seinni hálfleik og enduðu leikar því 3:3, 5:5-samanlagt, og þess vegna þurfti vítakeppni.
Þar reyndust Spánverjar sterkari og unnu hana 5:4 en Pedri skoraði úrslitavítið.
Í leiknum skoraði Mikel Oyarzabal tvö mörk fyrir Spán og Lamine Yamal eitt. Hjá Hollandi skoruðu Memphis Depay, Ian Maatsen og Xavi Simons.
Frakkar unnu þá Króatíu í síðasta leik átta liða úrslitanna, einnig eftir vítakeppni, í Frakklandi.
Króatía hafði unnið fyrri leikinn 2:0 en Frakkar komust í 2:0 þökk sé mörkum frá Michael Olise og Ousmane Dembélé. Leikar enduðu þannig og því þurfti vítakeppni.
Þar reyndist markvörðurinn Mike Maignan hetja Frakka sem mæta Spánverjum í undanúrslitum en Portúgal og Þýskaland mætast einnig.