England átti ekki í miklum vandræðum með að sigra Lettland, 3:0, á Wembley-leikvanginum í Lundúnum í kvöld.
Leikurinn var liður í undankeppni HM en liðin eru bæði í K-riðlinum ásamt Albaníu, Serbíu og Andorra.
England er í toppsæti riðilsins með sex stig, fullt hús, en Lettland er í þriðja með þrjú stig. Albanía vann Andorra, 3:0, í kvöld og er með þrjú stig í öðru sæti. Andorra hefur tapað tveimur fyrstu leikjum sínum og Serbía hefur ekkert spilað enn þá.
Reece James kom Englandi yfir á 38. mínútu með glæstu aukaspyrnumarki, 1:0.
Harry Kane tvöfaldaði forystu Englands á 68. mínútu eftir sendingu frá Declan Rice og Eberechi Eze skoraði þriðja mark Englands sjö mínútum síðar eftir sendingu frá Phil Foden.
Þetta var annar leikur Þjóðverjans Thomas Tuchel sem landsliðsþjálfari Englands en hann hefur unnið báða.