Írinn Eamon Dunphy, sem lék á sínum tíma 23 landsleiki fyrir knattspyrnulandslið þjóðar sinnar, hefur enn sínar efasemdir um Heimi Hallgrímsson sem þjálfar karlalandslið Írlands þrátt fyrir tvo sigra gegn Búlgaríu í yfirstandandi landsleikjaglugga.
Í báðum leikjunum lenti Írland undir en sneri svo taflinu við og vann báða leikina 2:1 og þar með einvígið um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar samanlagt 4:2.
„Ég hef enn mínar efasemdir um tannlækninn þrátt fyrir þennan sigur því hann stillti upp liði sem skorti jafnvægi. Í hálfleik hafði ég miklar áhyggjur, ekki bara af stöðunni heldur meira af frammistöðunni.
Aðalástæðan fyrir vandamálum Írlands í fyrri hálfleik var ákvörðun Hallgrímssonar að hafa bæði Evan Ferguson og Troy Parrott í byrjunarliðinu í fremstu víglínu. Þeir eru báðir góðir leikmenn.
En hugsið um Niall Quinn og Robbie Keane eða þegar Quinn var frammi með Kevin Phillips hjá Sunderland. Einn sneri baki í markið, hinn tók hlaupin fyrir aftan.
Þetta var í reynd einföld formúla. Af hverju ákvað tannlæknirinn þá að flækja hlutina?“ velti Dunphy fyrir sér í pistli sem hann skrifaði fyrir Irish Mirror.
„Parrott og Ferguson eru keimlíkir. Þeir vilja báðir fara aftar á völlinn og spila boltanum með bakið í markið. Hvorugur þeirra tók hlaup fyrir aftan vörnina í fyrri hálfleik. Þegar það gerist ertu í vandræðum.
Taktískt var þetta vandamálið okkar og ég sagði við sjálfan mig í hálfleik að það yrði áhugavert að sjá hvernig Heimir myndi bregðast við. Hann brást ekkert við.
Það sem breytti leiknum var ekki snilld stjórans heldur einstaklingssnilli Ferguson. Þegar allt kemur til alls erum við með grunn að mjög góðu liði.
Ég myndi elska það ef við hefðum mjög góðan stjóra til þess að þjálfa þá. Það höfum við ekki. Ekki enn þá,“ skrifaði hinn 79 ára gamli Dunphy einnig.