Jan Vertonghen, leikjahæsti leikmaðurinn í sögu belgíska karlalandsliðsins í knattspyrnu, hefur tilkynnt að hann muni leggja skóna á hilluna að yfirstandandi tímabili loknu.
Vertonghen er 37 ára gamall miðvörður sem verður 38 ára í næsta mánuði. Hann leikur með Anderlecht í heimalandinu um þessar mundir og hefur gert frá árinu 2022.
Lengst af lék Vertonghen með Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni, frá 2012 til 2020.
Á ferlinum lék hann 157 A-landsleiki fyrir Belgíu og skoraði tíu mörk. Vertonghen tók þátt á þremur heimsmeistaramótum og þremur Evrópumótum með belgíska liðinu auk þess að spila með Belgíu á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008.