Skilur ekki hvernig Kompany fékk starfið

Sean Dyche og Vincent Kompany.
Sean Dyche og Vincent Kompany. Ljósmynd/Samsett/AFP

Sean Dyche, fyrrverandi knattspyrnustjóri Everton og Burnley, kveðst ekki skilja hvernig Vincent Kompany hafi farið að því að fá starf knattspyrnustjóra karlaliðs Bayern München síðasta sumar eftir að hafa staðið sig afleitlega með Burnley í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.

Burnley féll eftir að hafa aðeins unnið sér inn 24 stig en Kompany var svo ráðinn stjóri Bayern stuttu síðar og hefur gengið vel.

Dyche stýrði sjálfur Burnley um langt árabil og náði góðum árangri en var rekinn þegar liðið var með 33 stig í úrvalsdeildinni í apríl 2022. Féll liðið svo mánuði síðar eftir að hafa endað með 35 stig.

„Ef við snúum okkur að stóra Komps. Ég held að þeir hafi fengið 24 stig. Hann eyddi 127 milljónum punda og fékk starfið hjá Bayern. Í alvöru, ég veit ekki hvernig það gengur upp. Ég vildi að það væri ég sem væri með þetta starf.

Ég vildi að ég hefði skilið við félagið í 127 milljóna punda skuld og svo fengið starfið hjá Bayern. En jæja, þetta er allavega áhugaverð þróun,“ sagði Dyche í samtali við talkSport.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert