Argentína gerði sér lítið fyrir og vann sannfærandi sigur á Brasilíu, 4:1, í undankeppni heimsmeistaramóts karla í fótbolta í Buenos Aires í nótt.
Með sigrinum tryggði Argentína sér sæti á lokamótinu á næsta ári.
Júlian Álvarez kom Argentínu yfir á 4. mínútu og Enzo Fernández tvöfaldaði forskotið á 12. mínútu.
Matheus Cunha minnkaði muninn fyrir Brasilíu á 26. mínútu en ellefu mínútum síðar skoraði Alexis Mac Allister þriðja mark Argentínu og var staðan í hálfleik 3:1.
Giuliano Simeone skoraði fjórða markið á 71. mínútu og þar við sat.
Argentína er í toppsæti deildarinnar, sem inniheldur tíu lið, með 31 stig eftir 14 leiki. Ekvador er í öðru með 23 stig, Úrúgvæ í þriðja með 21 og Brasilía í fjórða, einnig með 21 stig.
Úrslit næturinnar:
Bólivía 0:0 Úrúgvæ
Argentína 4:1 Brasilía
Síle 0:0 Ekvador
Kólumbía 2:2 Paragvæ
Venesúela 1:0 Perú